Bréf birt í blöðum frá mér 20. jan 2003 til 27.júlí 2004,

Aftur á upphafssíðu.

Fyrst bréf til Þórólfs Árnasonar birt í Morgunblaðinu, borgarstjóri sagði mér að það hefði verið eitt hans fyrsta embættisverk að lesa það bréf. En ég hitti á hann stuttu seinna til að segja honum frá þessu máli. Næst er bréf frá mér til dómsmálaráðherra og borgarstjóra þegar Reykjvíkurborg hafði neitað beiðni lögmanns fjölskyldunnar. Seinast er bréf frá mér til íslensku þjóðarinnar um að ég sé á báðum áttum um að geta rekið þetta mál í Íslensku réttarkerfi.



Delhi N.Y. 20. jan. 03

Opið bréf til Þórólfs Árnasonar Borgarstjóra Reykjavíkur frá Ingimundi Kjarval

Hér með vil ég óska þér til hamingju með nýja starfið og að það verði þér og Reykjavíkurborg til heilla.
Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta bréf er svokölluð "gjöf Jóhannesar Kjarvals listmálara". Í þessu bréfi ætla ég að reyna að halda mér við staðreyndir sem allir eru sammála um og reyna að hafa stjórn á tilfinningum mínum. Ég sleppi öllu því sem við gætum deilt um.
Haustið 1968, 7. október eða nóvember, fóru þáverandi Borgarstjóri Reykjavíkur, Geir Hallgrímsson og Alfreð Guðmundsson þáverandi starfsmaður Reykjavíkborgar, á vinnustofu Jóhannesar Kjarval listmálara og gerðu ráðstafanir til að fjarlægja 153 kassa sem í voru yfir 5000 listaverk og settu í geymslu hjá Reykjavíkurborg. Þessir kassar voru síðan geymdir innsiglaðir í 17 ár, þangað til þeir voru fluttir á Kjarvalstaði og opnaðir.
Geir, þáverandi Forsætisráðherra lýsir ástandi Kjarvals þetta haust á fundi 1982 hjá þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur Davíð Oddssyni, á þessa leið (samkvæmt minnisblaði borgarstjóra): "að menn færu til hans og notfærðu sér einsemd hans og væru að slá hann um fé og fjármuni. Hann mundi hvergi una sér nema á Hótel Borg. Ákvað þá Geir í samráði við borgarráðsmenn að leigja handa honum herbergi á Hótel Borg, og þar bjó hann um alllangt skeið á kostnað Borgarinnar".
Jóhannes Kjarval var lagður inná Borgarspítalann 28. janúar 1969, vegna þess að hann var orðinn ósjálfbjarga. Ég læt svo aðra dæma um hvort hann hafi verið hæfur til að gefa allt sitt, tveimur eða þremur mánuðum áður.
Þetta haust var sonur Jóhannesar Kjarvals sjúklingur í Danmörku hjá systur sinni, ekkert samráð eða samband var haft við þau systkinin frá Reykjavíkurborg þetta haust og engin skjöl voru undirrituð um að þetta væri gjöf, þá eða seinna. Reykjavíkurborg tilkynnir síðan opinberlega stuttu fyrir andlát Jóhannesar Kjarvals að hann hafi gefið Reykjavíkurborg þessa hluti.
Fjölskyldan hefur margsinnis reynt að hreyfa við þessu en ekki getað fengið hjálp
til þess á Íslandi fyrr en núna.
Þetta eru allt staðreyndir sem enginn getur deilt um. Það eru aðrir hlutir sem gera þetta mál ljótara, en ég sleppi að sinni.
Þú sem Borgastjóri erfir þetta mál og ég öfunda þig ekki af því, en þú ættir að hafa í huga sorgina í minni fjölskyldu út af þessu. Þetta óréttlæti hefur viðgengist í áratugi og tími til kominn að hlutur Kjarval fjölskyldunnar sé réttur.

Virðingafyllst Ingimundur Kjarval

------------------------------------------------------------------------------------------------

Delhi N.Y. 20. júlí 2004

Opið bréf til Þórólfs Árnasonar borgarstjóra og Björns Bjarnarsonar dómsmálaráðherra og borgarráðsmanns frá Ingimundi Kjarval vegna erfðamáls Jóhannesar heitins Kjarval listmálara.

Þetta bréf er vegna svars borgarlögmanns Antons Björns Markússonar þann 8. júlí 2004 fyrir hönd borgarstjóra til fjölskyldu minnar, vegna kröfu Kristins Bjarnasonar hrl. um afhengingu muna og myndverka í vörslu borgarinnar.
Í því bréfi Antons stendur í neitun að Jóhannes heitinn Kjarval hafi gefið þessa muni munnlega 7. nóvember 1968 og það haft þá réttarverkun í för með sér að þetta væri eign Reykjavíkurborgar. Hér eftir ætla ég að fara yfir þann atburð og nota eingöngu staðreyndir sem Reykjavíkurborg heldur fram.
Geir Hallgrímsson þáverandi borgarstjóri (1968) segir samkvæmt skýrslu gerða haustið 1982 (af Baldri Guðlaugssyni hrl. núverandi ráðuneytisstjóra), Geir þá forsætisráðherra: "Geir Hallgrímsson segist sannfærður um að um gjöf hafi verið að ræða, en man ekki eftir því hvernig þetta bar að." Síðan: "Geir taldi að J .Kj. hefði ekki viljað að skýrt yrði frá gjöfinni opinberlega og því hefði ekki einu sinni verið bókað um þetta í fundargerðum borgarráðs þar sem slíkar fundargerðir væru opinberar."
Í minnisblöðum Davíðs Oddssonar þáverandi borgarstjóra frá fundi með Davíð og Geir sama haust (1982) er haft eftir Geir meðal annars: "Engin vafi sé á því í sínum huga, að þar hafi verið um að ræða gjöf til Borgarinnar, ekki háð annarri kvöð en þeirri , að borgin léti gera við myndirnar og hefði þær til sýnis í húsakynnum sínum."
Þetta eru einu heimildir svo ég viti til um staðhæfingu Geirs Hallgrímssonar um að afi hafi gefið nærri allt sitt, munnlega við Geir til Reykjavíkurborgar. Hvergi er til undirritað skjal frá Geir eða nokkur lögleg staðfesting á þessum atburði.
Alfreð Guðmundsson sem átti að hafa verið viðstaddur þennan atburð, handskrifar staðfestingu haustið 1982 en undirritar ekki, (aðeins upphafstafir), engir vottar. Dagbók sonar Alfreðs var lögð fram sem sönnunargagn haustið 1982 fyrir því að afi hefði gefið þetta. En þar er eingöngu minnst á nokkra tugi teikninga og dóts ofan af lofti, en þetta voru meira en 5000 verk í 153 kössum.
Þetta eru staðreyndirnar sem allir eru sammála um. Það að afi var orðinn sjúklingur þetta haust, lagður inn tveimur mánuðum ( 29.Jan) eftir þennan atburð vegna andlegrar hrörnunar, hefði gert hvaða löggerning það haust ólöglegan, nema að það var enginn löggerningur. Þó svo að Geir Hallgrímsson hafi verið lærður lögfræðingur og stundað lögmannstörf í áraraðir. Nú gætu sumir ætlað orð Geirs ættu að vera veigameiri en annarra manna, hann bæði borgarstjóri og síðan forsætisráðherra, en samkvæmt mínum skilningi er eins manns orð ekki veigameira en annars í lögum og þess vegna gerðir skriflegir og undirskrifaðir gjörningar um hluti, sérstaklega þegar um er að ræða þúsundir listaverka eftir helsta listamann Íslands. Geir hefur eitt sér til málsbóta, hann vissi líklega ekki, hvorki 1968 né 1982, hvað var í þessum kössum. Þeir fóru í geymslu á Korpúlstöðum í 17 ár eða þangað til 1985 þegar innihaldið var skráð í fyrsta skipti. Ófullkominn og villandi listi var gerður 1968 þar sem ekkert listaverk var skráð..
Ég get haldið áfram að telja upp staðreyndir hver annarri fáránlegri, en sleppi. Vildi ræða einn hlut þó, óttann og skelfinguna sem fjölskyldan hefur þurft að stríða við öll þessi ár og áratugi.
Siðgildi er eitthvað sem við erum öll erum alin upp við. Við flest Íslendinga vitum af almennu siðferði, og ef ekki, þá eru lögin til staðar að hjálpa okkur á hinum þrönga vegi. Hörmungin frá byrjun að þeir aðilar sem snéru að fjölskyldunni fyrir hönd borgarinnar, höguðu sér sem glæpamenn, mafíulið. Sársaukin og óttinn gróf um sig í fjölskyldunni, eðlileg afleyðing hegðunar þessara manna. Að glæpahyski stjórnaði arfleið fjölskyldunnar í raun óbærilegt. Þetta varð líf okkar á Íslandi, og líklega ástæðan að fá okkar ílengdust þar.
Hvorugur ykkar komu nálægt þessu í gegnum árin og ekki ykkur að kenna, en eins og ég skrifaði ykkur báðum, þá hlýtur þú Þórólfur sem borgarstjóri vitandi um þessar staðreyndir að taka fulla ábirgð á því sem eftir fer og að fjölskyldan er hrelld og pínd en frekar(fyrir utan fjárhagslegan skaða). Einnig hlýtur þú Bjarni sem dómsmálaráðherra, borgaráðsmaður og þingmaður að bera ábirgð á því að þessi réttarhryllingur veltur áfram í gegnum réttarkerfið. Ábyrgðin er ykkar og ef þið standið ekki undir henni, óhæfir í embættum að mínum dómi.
Þetta voru seinustu forvöð að stöðva þennan feril, ef hann heldur áfram til dómsstóla, verður þetta Íslandi, Reykjavíkurborg, Jóhannesi Kjarval listmálara og fjölskyldu hans til skammar og sárauka. En munið mín orð, mesta háðungin verður ykkar þegar staðreyndirnar verða öllum ljósar og að þið báðir kynntuð ykkur þetta mál og gerðuð ekkert! Ég skrifaði ykkur báðum og reyndi að opna augu ykkar.
Þú Þórólfur svaraði með þessum orðum meðal annars 1.júlí 2004: "eins og hef áður skýrt út fyrir þér tel ég ekki rétt að borgarstjóri fari fram í þessu máli, það verður að hafa sinn gang." Og þú Björn 10. júlí 2004 meðala annars "þú getur ekki vænst efnislegar afstöðu minnar um þetta mál. Það er í þeim farvegi hjá yfirvöldum sem þið hafið óskað." Og hver er þessi farvegur sem við höfum "óskað", að Íslensk yfirvöld haldi áfram af fremsta megni að troða þessa fjölskyldu í svaðið, núna með ykkar hjálp. Er engin botn í siðblindu Íslenskra stjórnvalda og þá ykkar? Björn, ég get ekki séð annað en þessi setning hjá þér sé rugl, en þú sem stjórnmálamaður hlýtur þó að velja orð þín af varkárni, vitandi að þú gætir þurft að verja þau seinna. Væri ekki við hæfi að þú skýrðir á einhverjum vettvangi hvað þú átt við með orðinu "óskað"?
Annað mál. Mér skilst að bók eigi a ð koma út í samvinnu við Reykjavíkurborg, vegna 120 ára afmælis afa, þar sem þessi munir og gögn um Kjarval í vörslu Reykjavíkurborgar verða notuð. Að mínum dómi var beitt brellum, svikum, hótunum og undirferli við fjölskylduna til að fá hana til skrifa undir samninga í því sambandi. Borgin gerði í raun fyrst leynisamning við bókarútgefandann og síðan var beitt brellum og hótunum til að fá fjölskylduna með á eftir án þess að láta hana vita að samningur var fyrir hendi milli borgar og bókarútgefanda. eitt skilyrðið hjá fjölskyldunni og lofað af bókarútgefanda að borgin yrði ekki meðlimur að þessari bók. Þetta sýnir að Reykjavíkurborg hefur ekki breitt hegðun sinni gagnvart fjölskyldunni í gegnum árin, eða eins og faðir minn skrifaði árið 1975: "...eftir þá reynslu í þau skipti sem hef ég farið heim, og þann hroka og afskiptaleysi sem manni hefur verið sýndur af yfirvöldum,".
Þessar eignir eru ekki ykkar að ráðstafa eða að semja um. Ég hef ítrekað Þórólfur, skrifað þér um þetta mál og reynt að benda þér á þetta feigðarflan, en þú ekki viljað gera neitt. Ég fullyrði að Reykjavíkurborg hafi staðið í óheiðarlegum gjörningum og leynimakki með útgefanda sem notaði klæki til að ná samningum, meðan fjölskyldan að mínum dómi var skilin eftir í ótta um að hreifa við því eftir á.
Ég skrifaði þér einnig Þórólfur, að þó svo að Reykjavíkurborg viðurkenndi ekki að þessir hlutir væru eign fjölskyldunnar hlytir þú að skilja að fórnin var aldrei afa heldur barna hans og okkar, ekki rétt að móðir mín sem eigandi verðmæta hjá Reykjavíkurborg sem mætti jafnvel meta á milljarð, búi í Danmörku í fjárhagslegri útlegð. Ég skrifaði að ef þú gerðir ekkert annað, gætir þú hjálpað systur minni að koma upp aðstöðu svo hún gæti hugsað um móðir okkar á Íslandi, mamma nálægt níræðu. Þú svaraðir aldrei, líklega ekki í verkahring borgarstjóra Reykjavíkur að hugsa um gamlar konur, einungis að taka yfir eignir þeirra.
Ingimundur Kjarval

----------------------------------------------------------------------------------------------


Delhi N.Y. 27. júlí 2004


Til Íslensku þjóðarinnar frá Ingimundi Kjarval vegna erfðamáls afa míns Jóhannesar Kjarval listmálara.

Erfðalög Íslands eru einföld, gamalmenni geta ekki gefið eignir sínar munnlega.
Eina stafinn um munnlega yfirfærslu eigna í lögum er um fólk í lífshættu, en þá verði að bera vitni innan viss tíma, ef ég skil rétt. Lögmaður Reykjavíkurborgar fyrir hönd borgastjóra hefur ákveðið að hundsa allar staðreyndir málsins og lög og neita beiðni lögmanns fjölskyldu minnar.
Að mínu áliti eru sérstakar ástæður fyrir því, ekki verið að hugsa um hagsmuni Reykjavíkurborgar og þá Íslensku þjóðarinnar, heldur að yfirfæra ábirgð fárra á þessum hryllingi yfir á Reykjavíkurborg með því að neita þessari beiðni.
Beiðni lögmanns var send með gögnum seint í júní mánuði 2004. Ég hefði talið að tíma tæki að fara yfir þessi gögn (mér vitandi var aldrei haft samband við lögmann fjölskyldunnar til að fá skýringar á gögnum).
Ég sendi þessa beiðni lögmanns til allra í borgarstjórn og þingamanna í von um að viðkomandi kynntu sér þetta mál. Ég fékk viðbrögð bæði frá þingmönum og meðlimum í borgarstjórn, en vegna sumarleifa og anna þingmanna var ekki hægt að ætlast til að þeir kynntu sér málið á svo stuttum tíma. Svar borgarlögmanns Antons Björns Markússonar var dags. 8. júlí 2004.
Mín skoðun er, að flýti svarsins hafi haft þann tilgang að stöðva umræðu og yfirfæra ábirgð yfir á Reykjavíkurborg sem allra fyrst, að þetta hafi verið brella sem Þórólfur Árnason borgarstjóri tók þátt í, að Þórólfur Árnason hafi tekið þátt í spillingu í stjórnkerfi borgarinnar.
Ég ásaka Þórólf Árnason borgarstjóra hér með að gæta hagsmuna annarra en Reykjavíkurborgar sem hann sór eið að gæta.
Ég tel að fjölskyldan muni ekki geta leitað réttar síns í Íslensku réttarkerfi, það sé spillt. Lögmenn eigi sinna hagsmuna að gæta hjá stjórnmálaöflum og að dómarar heyri beint undir ráðherra, skipaðir að geðþótta viðkomandi jafnvel á móti ráðleggingum þeirra sem eiga að hafa um slíkt að segja. Þetta mál sé of stórt og höggvi of nálægt æðstu völdum á Íslandi, þannig að fjölskyldan muni aldrei fá réttláta meðferð á Íslandi. Þess vegna er ég mjög á báðum áttum að fylgja þessu máli eftir.
Anton Björn Markússon lögmaður er formaður stéttarfélags lögmanna, hlýtur að hafa virðingu starfsbræðra sinna. Honum finnst ekkert að því að setja nafn sitt við þessa neitun. Ég hef ekkert bolmagn að standa einn upp í Íslensku valdakerfi, ekkert vit í að setja fjármagn í sýndarréttarhöld þar sem allir eru innherjar nema ég.

Virðingarfyllst Ingimundur Kjarval


Aftur upphafssíðu.