Grein um húsnæðismál Kjarvals eftir mig, 8. mars 2004.

Kjarvalshús hér.

Hús foreldra minna hér.

Veiðikofinn hér.

Veiðikofinn er við Hrútarfjarðará. Byggt hefur verið við hann, upphaflega var hann alveg í sama stíl og Kjarvalshús á Seltjarnarnesi. Hann var byggður nokkrum árum á undan því húsi.

Kjarvalshús önnur mynd hér.

Delhi N.Y. 8. mars. 2004
Að skrifa um píslar og pínugöngu Jóhannesar Kjarval listmálara í húsnæðismálum sínum er varla hægt ógrátandi, nema að saga Íslendinga yfirleitt í þeim málum var sorglegri.
Þegar faðir minn kom til Íslands 25. janúar 1939 19 ára að aldri frá Danmörku, bjó faðir hans í vinnustofu undir súð í Austurstræti 12, um 24 fermetra herbergi. Þar hafði Kjarval málað myndir á veggina nokkrum árum áður þegar hann átti ekki pening fyrir lérefti og haldið sýningu.
Eftir lát afa var þessum veggmyndum síðan bjargað af fjölskyldunni og sendar til Englands til viðgerðar eftir erfiða baráttu, bæði við Framsóknarflokkinn og Listasafn Íslands um eignarhald á þeim. Þær lágu undir skemmdum í áraraðir meðan deilt var um eignaréttin.Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra gekk í eftir fjölmiðlafjöllun að skipa Dr. Gauk Jörundsson prófessor til að skera úr um hver ætti þessi verk og þetta varð eign fjölskyldunnar.
Grein í Vísi fyrir stríð skrifuð af "guis", lýsir þessum húsakynnum:
"Nú skulum við snöggvast líta inn í súðarherbergi í Austurstræti, þar sem einn frægasti núlifandi Íslendingur berst við örðugleika daglegra lífsþarfa . Fyrir okkur verða ekki gljáborinn og bólstruð húsgögn, speglar, klæðaskápar, svefnherbergi og vinnustofa . Nei þar er aðeins ein stofa með risgluggum og dúklögðu steingólfi. Hér býr Kjarval! Þetta eru nú herligheitin mín segir hann, dálítið stríðnislega, um leið og hann dregur fram kollóttann stól og býður mér að setjast. Hvað hafið þér búið hér lengi? Og eg er búinn að hýrast hérna síðan 1929, og raunverulega hef ég ekki undan neinu að kvarta. Ég hef ekki einu sinni efni á því að á því að búa svona vel hvað þá betur. " Og seinna í sömu grein: "Þegar hann hefir sýnt öll lausleg verk sín sem hér eru inni, verður mér litið á þiljurnar, sem alsettar eru skuggalegum kynjamyndum frá gólfi til lofts. Er þetta málað á striga? Nei eg málaði fyrst yfir með hvítum lit yfir veggfóðrið, sem hér var fyrir, þegar eg flutti hingað. Síðan hef eg stundum krassað hér ýmislegt þegar illa og vel hefir legið á mér og mér finst einstöku sinnum að þilið þarna hafi eg málað mínar skárstu myndir. Þetta er ódauðleikinn. Þetta trúin og þarna er gyðingurinn gangandi, segir Kjarval og bendir á þrjár svartar myndir sem mér sýnist að vísu allar eins, og auk þess mjög ólíkar því, sem menn almennt mundu hugsa sér slíka hluti færða upp á léreft. Það er áreiðanlegt, að ein hvern tíma þykjumst við Íslendingar af því að hafa átt mann eins og Kjarval, en það er bara af býsna litlu að þykjast ef við sýnum honum ekki verðskuldaðan sóma meðan krafta hans nýtur við." Og seinna: "Fyrir ári síðan var Kjarval fimmtugur og var hans þá vel og maklega minst , en hátíðarljóminn hvarf furðu fljótt, " Og áður í sömu grein:"Jóhannes Kjarval er einn þeirra örfáu Íslendinga, sem heimurinn hefir veitt eftirtekt. Hann er einn þeirra manna sem ber upp hróður Íslands vorrar aldar, meðal stórþjóða heimsins, en hann er líka einn af mörgum, sem Íslenska þjóðin hefir misskilið og tortryggt og synjað hjálpar meðan blómaskeið lífs hans var að ganga honum úr greipum. Það er ekki ofmælt, að Íslendingum hefir farist miður vel við mann eins og Kjarval, og mun það betur og maklega eiga síðar eftir að koma í ljós".
Eftir stríð fær afi inni í íbúð í fjölbýlishúsi á horninu á Njálsgötu og Barónsstíg. Ég veit að lyktin var öðrum íbúum til ama. Þar man ég fyrst eftir honum sem barn. Foreldrar mínir bjuggu þá með 5 börn í risíbúð fyrir ofan Myndlista og handíðaskólann á Grundastíg 2. Mín fyrstu kynni af afa svo ég muni er að faðir okkar og öll börnin labba upp í Sundhöll á sunnudegi til að fara í bað. Ég nautillur vegna þess að yngri systir mín var sett í mína kerru og ég neyddur til að ganga, þó ég sé viss að faðir minn hafi borið mig meirihlutann. Ég líklega fjögra ára. Eftir baðið er gengið yfir til afa og bankað upp á. Ég man að málingarlyktin lagði út ganginn. Afi rekur út hausinn, sér okkur og lokar hurðinni. Ég man (reiður fyrir) að svona ætti enginn að fara með föður minn.
Um 1960 kemst afi yfir pláss í Sigtúni 7, sal fyrir ofan Breyðfjörðs blikksmiðjuna sem hann hafði til dauðadags. Þar heimsótti ég hann nokkrum sinnum en ekki oft. Ég veit að þar átti hann í erfiðleikum með að halda á sér hita.
Ég veit að samþykkt var frumvarp á Alþingi um 1945 í kringum sextugs afmæli afa að byggja honum hús á Skólavörðuholti. Hversvegna það datt upp fyrir þekki ég ekki. Ég er með bænarbréf frá föður mínum til Reykjavíkurborgar, þar sem hann falast eftir lóð handa þeim feðgunum með samþykki Kjarvals í Laugarásnum. En honum hafði áður verið neitað um lóð upp að lóð vinar síns Gesti Þorgrímssyni listamanni á sama svæði.
Faðir minn skrifar meðal annars "Það er ásetningur minn að koma upp, í sambandi við mitt eigið hús, íbúð og boðlegri vinnustofu fyrir föður minn, Jóhannes Kjarval málara. Það er mörgum kunnugt, að hann er algerlega frábitinn öllu umstangi um sína eigin hagi og mun aldrei standa sjálfur í umsóknum sem þessum. Hinsvegar er hann með í ráðum um þetta og hefur heitið okkur hjónum fjárhagshjálp til að koma upp húsi fyrir okkur, ef þessar ráðagerðir ganga fram. Faðir minn hefur í þessu sambandi fest hug sinn algerlega við þetta svæði í Laugarásnum"(vinur afa, Hallur Hallsson tannlæknir átti heima rétt hjá)", að ég tel mig óhætt að fullyrða að hann yrði því allshugarfeginn, ef þessu mætti verða framgengt, sérstaklega ef þetta mætti ganga greiðlega og árekstralaust, en hann er maður ákaflega viðkvæmur í öllu slíkum efnum og vandgert til hæfis að því leiti. Ég leyfi mér að benda á það að ég og börn okkar hjónanna eru þeir einu nánu ætt menn, sem faðir minn á hér á landi. Þessi mikilsmetni maður, sem þjóðin og valdsmenn hennar lofa og vegsama opinberlega, hann tekur nú að eldast og á raunar ekkert athvarf, hvorki eiginlegt heimili, en síður vinnustofu, sem nokkuð nálgist það, að vera slíkum manni samboðinn.
Ég hef ríka ástæðu til að ætla, að hann mundi nú þýðast vel þær ráðstafanir, sem hér ræðir um. Ef bæjarráði Reykjavíkur mætti auðnast að vinna honum gott verk með einfaldri ráðstöfun á einni byggingarlóð, þá mundi seinni tíminn ekki telja það illa ráðið.
Við hjónin eigum fimm börn 2 -12 ára gömul. Við höfum búið með börn okkar í tveimur löndum í misjöfnu leiguhúnæði, og hefur orðið búskapurinn dýr og erfiður. Það húsnæði, sem við höfum, verðum við að rýma á næsta ári, ef ekki fyrr. Jeg legg þetta mál þannig fyrir háttvirt bæjarráð, til vinsamlegrar athugunar. Reykjavík 15. júlí 1954 Virðingafyllst Sveinn Kjarval ".

Árið 1964 veikist "mömmupabbi" og lá lengi á Landakotinu áður en hann lést. Móðir mín gerði sér grein fyrir að eitthvað þyrfti að gera í málum tengdaföður hennar. Foreldrar mínir ákváðu að best væri að byggja honum EINFALT timburhús á lóð við þeirra hús á Seltjarnarnesi. Faðir minn hannaði hús í stíl veiðikofa sem hann hafði hannað upp í Hrútafirði og fer með þessar teikningar til Gylfa Gíslasonar menntamálaráðherra.
Þar með var þetta tekið úr höndum pabba. Endanlega eftir miklar tafir er byggt þarna risasteinhús, kostað af Seðlabankanum og hannað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni arkitekt, en byggt á teikningum föður míns. Þorvaldur neitar að faðir minn eigi nokkuð í því húsi. Sönnunin fyrir því að það ekki rétt er þessi kofi í Hrútafirðinum. Það er líklegt að Þorvaldur hafi skýringar á hvernig þetta gerðist, en hann hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum frá mér. Hvað varð um teikningar föður míns veit ég ekki. Ég man eftir að hafa séð þær sem unglingur. Einnig er til dagbók eftir mág minn sem segir frá þessum teikningum. Kannski eru þær í Menntamálaráðuneytinu, hjá Seðlabankanum eða gögnum Húsameistara Ríkisins. Ég veit að faðir minn var látinn hanna innréttingar í húsið án þess að undirskrifa teikningarnar. Hversvegna faðir minn fékk ekki að undirskrifa eigin teikningar er mér óskiljanlegt, en Sveinn Kjarval var lærður innanhús arkitekt, hannaði innréttingar á Bessastöðum, í Barnaspítala Hringsins, Naustið, kirkjur, Tröð og margt margt fleira. En þetta var ákvörðun ráðamanna í kringum þetta verkefni. Faðir minn fjallar um þetta á blaðamannafundi árið 1975 sem er til á bandi.
Þorvaldur S. Þorvaldsson svaraði fyrirspurn frá mér 30. júlí 2003:
"Ingimundur sæll. Það er rétt að ég hannaði húsið við Sæbraut sem starfsmaður þá hjá Húsameistara ríkisins. Verkefnið var að ósk Gylfa Þ. Gíslasonar þáverandi menntamálaráðherra.
Ég hitti föður ykkar og heyrði aldrei neinar athugasemdir né man eftir að hann ræddi um teikningar sínar hvað þá sýndi okkur.
Skemmtilegt að sjá þessa mynd af veiðihúsinu, sem ég hef ekki séð. Þekki ekki brottfararsögu Sveins sem ég kynntist aðeins sem skemmtilegum manni og skínandi hönnuði Góða kveðjur. ÞSÞ"

Hlutir í kringum Kjarvalshúsið á Seltjarnarnesi brutu endanlega föður minn og fjölskyldan flutti til Danmerkur. Afi bjó aldrei í því húsi, var orðinn sjúklingur þegar það var búið.
Ég ætla ekki að fjalla nánar um þetta hús, en fullyrði og legg nafn mitt undir að hroki, valdaníðsla og villimennska valdamanna var með ólíkindum. Móðir mín er ein á lífi í dag 87 ára og stundum kemur sorgin upp í henni út af þessu máli.
Ingimundur Kjarval.

-----------------------------------------------------------------------------------------

Skýringar á myndum: Kjarvalshús út á Nesi. Veiðikofi sem faðir minn hannaði og byggði í Hrútafirði. Þetta er ekki hin upprunalega gerð, byggt við hann. Var með skávegg á báðum hliðum eins og Kjarvalshús. Líklegt að faðir minn hafi haft fyrirmynd í Bandarískum veiðihúsum sem aftur höfðu síðan rætur í "leantoo's", fumstæður byggingarmáti. Græna húsið sem sést við Kjarvalshús er hús sem foreldrar mínir áttu þangað til þau fluttust til Danmerkur, heitir Sætún.