Bréf Steinunnar Bjarman til Kjarvals 10. jan 1969.


Aftur á upphafsíðu.

To Index in English.

Hér á eftir fer bréf til Kjarvals frá Steinunni, hún lýsir því hér (í skýrslu 1987) þegar hún hitti Kjarval til að láta hann fá listann og þetta bréf:

"Eftir áramótin vélritaði ég skrárnar í 3 eintökum og óskaði Lárus H. Blöndal eftir því að ég afhenti Kjarval og Geir Hallgrímssyni borgastjóra sitt eintakið hvorum og einu eintaki héldi safnið. Ég reyndi nokkrum sinnum að ná sambandi við Kjarval á Hótel Borg en hann kvaðst þá vera slappur og hafa erfitt með svefn. Það var fyrst föstudaginn 17. janúar 1969 sem hann sagðist geta talað við mig. Við hittumst í gestamótökunni á Hótel Borg milli 10 og 11 árdegis og sat ég þar með honum tæpa klukkustund. Það lá vel á honum þessa morgunstund. Þegar ég ætlaði að afhenda honum skrána, neitaði hann fyrst að taka við henni, sagði að þetta væri allt búið og gert, sér kæmi þetta dót ekki lengur við og annað í þeim dúr.
Ég bað hann samt að taka við skráni og féllst hann á það að lokum. Síðan spurði ég hann um ýmsar gamlar myndir, sem ég hafði rekist á, og virtist hann hissa og glaður þeg ég sagði honum frá þeim.
Við Kjarval kvöddumst síðan í mesta bróðerni og virtist hann mjög feginn að mál þetta var komið í höfn og var þetta í síðasta skipti sem ég talaði við hann."


Og síðar í sömu skýrslu: "Kjarval fór á sjúkrahús 28. janúar 1969 þar sem hann dvaldi til dauðadags 13. apríl 1972. Ég heimsótti hann þangað einu sinni en er ekki viss um að hann hafi þekkt mig."

Það hefði átt að vera Steinunni fullljóst á þessu stigi að afi var sjúklingur og ef að hún vissi að litið var á þetta sem gjöf átti hún að vita að þetta var ekki rétt. En hvergi í þessu bréfi er minnst á "gjöf". Í skýrslu Steinunnar (skrifuð 1987 fyrir Davíð Oddsson) er talað um "gjöf Kjarvals". Ábirgð Steinunnar hlýtur því að vera stór, það er hún sem gerir þenna lista þar sem ekkert listaverk er skráð og þau þar með falin í 17 ár. Ingimundur Kjarval 14. ágúst 2004.



Skrifstofur Reykjavíkurborgar
Skúlatúni 2 - sími 18000
Borgarskjalasafn


Reykjavík, 10. janúar 1969.

Herra listmálari Jóhannes Sveinsson Kjarval, Reykjavík.

Kæri meistari!
Í nóvember s.l. fól Lárus Blöndal borgarskjalavörður mér að fara í gegnum og flokka muni, sem bárust safninu frá yður um þær mundir. Verki þessu var hagað þannig, að tekið var úr öllum kössum, sem dótið barst í og það ryksugað, þurrkað , þvegið eða hreinsað , allt eftir því sem við átti. Dótið var síðan flokkað niður, skrásett og raðað í kassa. Kassarnir voru límdir aftur, bundið fyrir og þeir innsiglaðir.
Auk mín hafa aðeins tvær hreingerningarkonur farið í gegnum þetta dót og höfum við allar reynt að fara eins gætilega með það og okkur var unnt og forðast að hnýsast í sendibréf eða annað. Þessu verki er nú lokið og sendi ég yður afrit að skrá þeirri er ég gerði er ég gekk frá dótinu. Ég vona að þér við lestur þessarar skrár komist að raun um að öllu hefir verið til skila haldið eftir því sem unnt var.

Með virðingu og kærum kveðjum,

(Undirskrift)

Steinunn Bjarman

Aftur á upphafssíðu.