Aftur á heimasíðu.
To Index in English.
Delhi N.Y. 5. mars. 2004
Jóhannes Kjarval listmálari er grafinn í suðvesturhorni kirkjugarðsins við Suðurgötu með bróður sínum Ingimundi Sveinssyni fiðlu og móður, Karítas Sverrissen.
Karítas eignaðist 13 börn með Sveini Ingimundarsyni. Hún fór síðan til Kanada með yngri manni en kom aftur til Íslands. Þorsteinn afabróðir minn sagði að hún hefði ekki haft móðurmjólk handa börnunum sem hlýtur að hafa gert uppeldið miklu erfiðara. Mér sagt að hún hafi verið flink til handanna.
Afi lést árið 1972. Flestir sem muna ekki eftir þessum árum skilja ekki hversu sterk ítök hann átti í þjóðinni. Einn af þáttum sjálfstæðisbaráttu Íslands var að hasla sér völl í heiminum, láta taka eftir sér, vera þjóð með þjóðum. Áráttumál sem stundum kom fram í barnalegum ákafa að gera þá Íslendinga sem náðu árangri erlendis frægari en þeir voru í raun.
Jóhannes Kjarval var stórbrotinn persónuleiki, gífurlega afkastamikill listamaður, með lengri feril en flestir, þó hann hafi ekki farið til náms fyrr en rétt undir þrítugt. Ég á erfitt með að dæma list afa,of nálægt til þess, en á því að hann sé einn af gersemum mankynsins komandi úr forneskju Íslands inn í nútímann með slíkum hæfileikum, krafti og karlmennsku.
Þegar amma og hann hittast í Danmörku var hún fín dama í Kaupmannahöfn en afi sjóari frá Íslandi. Þau eignuðust tvö börn, Ásu og Svein föður minn í hjónabandi en skildu seinna. Faðir minn flutti til föður síns á Íslandi 1939 þá 19 ára.
Amma Tove var rithöfundur og þekkt persóna í dönsku þjóðfélagi fyrir stríð. Hún var friðarsinni og barðist fyrir því eftir stríð að landráðamenn yrðu ekki teknir af lífi í Danmörku eins og gerðist í Noregi, notaði jafnvel upp virðingu sína með þeirri baráttu.Til dæmis var hún gerð að fígúru í skáldsögum Hans Chrefig sem Frú Druse. Tove Kjarval lést árið 1956.
Í kringum lát afa var gerð skoðanakönnun hver væri ástkærasti einstaklingur íslensku þjóðarinnar, Forsetinn kom fyrst, síðan Jóhannes Kjarval ef ég veit rétt. Ein ástæðan líklega að alþýðu fannst hann einn af þeim en ekki yfirstéttinni. Margir sáu sér hag í að vera nálægt meistara Kjarval seinustu ár hans, meðal annars stjórnmálamenn, hans dýrð þeirra einkum á kosningardegi.
Umræður voru um hvort ætti að jarðsetja Kjarval á Þingvöllum en fallið frá því af ástæðum sem ég þekki ekki nógu vel. Opinber jarðaför fór fram úr Dómskirkjunni á kostnað ríkisins og hann grafinn í kirkjugarðinum við Suðurgötu.
Foreldrar mínir bjuggu þá í Danmörku við þröngan kost. Börn hans fóru til Íslands en móðir mín komst ekki. Seinna, 1976 þegar Rósa Hjörvar móðir hennar lést fór hún heim í jarðaförina og til að ganga frá dánarbúinu. Foreldrar hennar Helgi Hjörvar og Rósa höfðu búið í Suðurgötu 6 í áratugi, alið átta börn bæði í Tjarnargötu 18 og Fjalarkettinum við Aðalstræti þangað til þau fluttu í Suðurgötuna.
Móðir mín komst að því að ekki hafði verið gengið frá gröf tengdaföður hennar. Hún gekk þá í að fá legstein í Steinsmiðjunni fyrir pening úr dánarbúi foreldra hennar. Þarna hafði Ísland þúsundir listaverka úr vinnustofu ástkærasta listamanns Íslands í safni byggt í hans nafni, fyrir pening sem hann var látinn gefa en gröf hans skilin eftir sem flag.
Móðir mín er nálægt níræðu, býr rétt fyrir utan Silkeborg í fallegri lítilli íbúð. En hvort það er rétt að hún fædd og uppalin í miðbænum, ól upp fimm sín börn á Íslandi með sínum manni þangað til hann ákvað að flýja Ísland til Danmerkur, sé strönduð í Danmörku meðan eignir hennar eru lokaðar niðri kjallara í vörslu Reykjavíkurborgar vona ég að réttlátir Íslendingar dæmi um. Það sorglega, að þegar sá dómur fellur er líklegt að það verði of seint fyrir hana.
Bæði börn Jóhannesar Kjarval listmálara fóru úr þessum heimi í þeirri trú að Ísland hefði svívirt þau.
Ingimundur Kjarval
Aftur á upphafssíðu.