Krafa til Reykjavíkurborgar 20. júní 2004

Ljósmynd af Kjarval og forseta Íslands, Ásgeir Ásgeirssyni.
Aftur á upphafssíðu.

Reykjavíkurborg
Ráðhúsi Reykjavíkur
101 Reykjavík.

Reykjavík, 20. júní 2004


Efni: Endurupptaka einkaskipta á dánarbúi Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals
listmálara.
Krafa um afhendingu eigna dánarbúsins í vörslum Reykjavíkurborgar.

Undirritaður lögmaður gætir hagsmuna erfingja Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals listmálara vegna endurupptöku á einkaskiptum á dánarbúi hans. Jóhannes Sveinsson Kjarval átti tvö börn, Aase Kjarval Lökken og Svein Kjarval sem bæði eru látin.
Með fyrirsvar dánarbúsins fara Guðrún Kjarval eiginkona Sveins Kjarvals en hún situr í óskiptu búi eftir hann og Mette Stiil einkadóttir Aase Kjarval Lökken.

________________________________________________

Með beiðni dags. 19. nóvember 2003 til sýslumannsins í Reykjavík var þess krafist af hálfu tilgreindra aðila að einkaskipti á dánarbúi Jóhannesar Sveinssonar Kjarval yrðu endurupptekin.

Krafan byggði á því að við einkaskipti sem lokið var þann 16. apríl 1973 hefðu ekki allar eignir hins látna komið til skipta.

Annars vegar sé um að ræða listaverk og aðra muni í fórum Reykjavíkurborgar sem hafi verið í eigu hins látna þegar hann féll frá þann 13. apríl 1972 og séu í eigu dánarbús hans.

Hins vegar hafi komið fram listaverk eftir hinn látna í Stýrimannaskólanum árið 1994 sem engin hafi gefið sig fram sem eigandi að. Þar með verði að telja dánarbúið eiganda þeirra.

Með bréfi dags. 6. febrúar 2004 féllst sýslumaðurinn í Reykjavík á kröfu umbjóðenda minna um endurupptöku skiptanna.

Ekki var tekin afstaða til sjónarmiða umbjóðenda minna um eignarhald dánarbúsins á munum í vörslum Reykjavíkurborgar.

__________________________________________________________________________

Umbjóðendur mínir hafa falið mér fyrir hönd dánarbús Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals að krefjast þess að Reykjavíkurborg afhendi þeim öll myndverk og aðra muni sem teknir voru úr vinnustofu hins látna að Sigtúni 7, Reykjavík síðari hluta árs 1968.

Um er að ræða yfir 5.000 myndir og myndverk auk persónulegra muna hins látna. Svo sem sést af meðfylgjandi gögnum voru munir þeir sem um ræðir skráðir af Reykjavíkurborg og því væntanlega ljóst hverjir þeir eru.

Með bréfi þessu fylgir afrit af bréfi undirritaðs dags. 19. nóvember 2004 sýslumannsins í Reykjavík ásamt afriti þeirra skjala sem lögð voru fram.

Í bréfinu og með vísan til fylgigagna eru færð fyrir því rök að eignarréttur að þeim munum Jóhannesar S. Kjarvals sem komust í vörslur Reykjavíkurborgar seinni hluta ársins 1968 sé hjá dánarbúi hans enda hafi munirnir verið afhentir til geymslu en ekki til eignar.

Fyrir liggur að Reykjavíkurborg hefur ekki í fórum sínum gjafabréf fyrir tilgreindum munum og að sá aðili úr fjölskyldu Kjarvals sem hitti hann þegar var verið að rýma vinnustofuna að Sigtúni 7 ræddi það við Kjarval að verið væri að taka munina til geymslu.

Að öðru leyti er af hálfu umbjóðenda minna að svo stöddu látið við það sitja að vísa til þeirra sjónarmiða og rökstuðnings sem fram kemurí tilgreindu bréfi.


Á þessu stigi er þess óskað að Reykjavíkurborg láti hið fyrsta í ljós afstöðu sína til afhendingar tilgreindra muna.
Ljóst má vera að framhald málsins ræðst af því hver sú afstaða verður og eftir atvikum með hvaða hætti hún er rökstudd.

Verði fallist á kröfur umbjóðenda minna þyrfti að ganga frá samkomulagi milli aðila, þar sem fram kæmi með hvaða hætti afhending færi fram og eftir atvikum hvernig öðrum álitaefnum yrði lokið.

Rétt er að fram komi að sýni ný gögn og/eða upplýsingar ekki með óyggjandi hætti fram á eignarrétt Reykjavíkurborgar á tilgreindum munum, að þá hefur undirrituðum verið falið að höfða mál á hendur borginni til afhendingar þeirra.

Af hálfu umbjóðenda minna er gerður áskilnaður um skaðabótakröfur, þar á meðal vegna lögmannskostnaðar.

Þess er jafnframt farið á leit að undirrituðum verði látið í té yfirlit um listaverk og aðra muni í vörslum Reykjavíkurborgar sem stafa frá Jóhannesi Sveinssyni Kjarval. Nauðsynlegt er að fram komi hvað af þeim listaverkum og öðrum munum, hafi borist Reykjavíkurborg úr Sigtúni 7 í október-desember 1968 en af gögnum verður ráðið að Steinunn Bjarmann hafi unnið ítarlega skráningu á þessum munum á árunum 1985-6.


Virðingarfyllst,


__________________________
Kristinn Bjarnason hrl.

Meðfylgjandi:

1. Bréf sýslumannsins í Reykjavík dags. 6. febrúar 2004.
2. Beiðni um endurupptöku einkaskipta dags. 19. nóvember 2003 ásamt fylgiskjölum sem upp eru talin í beiðninni merkt nr. 1-30.

Aftur á upphafssíðu.