Minnisblað Davíðs Oddssonar 1982

Kjarval og Bjarni Benediktsson.
Aftur á upphafssíðu.

Þetta er minnisblað eða fundargerð af fundi haldinn á borgarstjóraskrifstofu. Skýrir sig sjálft.



Minnisblað.
Um fund haldinn á skrifstofu borgarstjóra fimmtudaginn 5. ágúst 1982.
Mættir voru , auk mín , Geir Hallgrímsson, Jón G. Tómasson borgarlögmaður og Alfreð Guðmundsson forstöðumaður Kjarvalsstaða.
Tilefnið var að erfingjar Jóhannesar Kjarval og erfingjar Sveins Kjarval með atbeina Guðmundar í Klausturhólum hafa leitað sér lögmanns til að sýna fram á, að Reykjavíkurborg hafi ekki fengið málverk þau og teikningar, sem hún telur sig hafa fengið að gjöf frá Kjarval, heldur einvörðungu hafi verið um að ræða, að Kjarval hafi á gamals aldri ákveðið að biðja Borgina um a koma þessum verkum fyrir í geymslu.
Geir Hallgrímsson sagði að þessar myndir ásamt fleiri munum hefði verið afhent sér af Kjarval hinn 7. nóv. 1968 að tilhlutan Kjarvals. Enginn vafi sé á því í sínum huga, að þar hafi verið um að ræða gjöf til Borgarinnar., ekki háð annarri kvöð en þeirri, að Borgin léti gera við myndirnar og hefði þær til sýnis í húsakynnum sínum. Kjarval hefði þá verið farinn að trúa því , að Kjarvalsstaðir myndu rísa og þar yrði hægt að koma fyrir þessum myndum. Geir sagðist ekki muna betur en Sveinn Kjarval hafi þakkað sér fyrir persónulega að taka við þessum myndum til eignar með þessum skilmálum. Nokkuð löngu áður höfðu vinir Kjarvals haft samband við Geir, m. A. Þeir Alfreð Guðmundsson, Jón Þorsteinsson o.fl., og kvartað undan einsemd Kjarvals og sagt sér, að menn færu til hans og notfærðu sér einsemd hans og væru að slá hann um fé og fjármuni. Hann mundi hvergi una sér nema á Hótel Borg. Ákvað þá Geir í samráði borgarráðsmenn að leigja handa honum herbergi á Hótel Borg, og þar bjó hann um allengt skeið á borgarinnar kostnað.
Borgarlögmaður taldi, að öll sönnunarbyrðin í máli þessu myndi hvíla á erfingjum, ekki síst myndi vega þungt tómlætis áhrif þeirra, þar sem þau hafa ekki hreyft málinu í tæp 10 ár, en lögmaður erfingjanna mun á því byggja að hefðaréttur borgarinnar hefjist ekki fyrr en frá og með ræðu þeirri, sem Birgir Ísl. Gunnarsson hélt 1973, þegar Kjarvalsstaðir voru opnaðir, því þar sé í fyrsta sinn á prenti gefið til kynna að borgin hafi eignast öll þessi verk.
Vakin var athygli á því á fundinum, að sýningarskrá þeirri, sem greinir frá opnuninni, birtist ræða borgarstjórans og jafnframt ræða Halldórs Laxness, sem flutt var samtímis, og þar tekur Laxness fram að borgin hafi fengið verk þessi til eignar frá Kjarval. Einhvern veginn hefur hann, þessi þekkti vinur Kjarvals, haft vísbendingu um það. Þetta hefur Baldur Guðlaugsson sennilega ekki athugað. Íöðru lagi liggur fyrir sýningarskrá, þar sem sérstaklega er um það fjallað að verið sé að sýna verk Kjarvals, sem hann hafi gefið og séu í eigu borgarinnar, og í sýningarnefnd þessari er eimmitt Jóhannes Kjarval, yngri og ber ábirgð á sýningarskránni.
Ákveðið var, að Geir reyndi að ná sambandi við Ragnar í Smára, sem nú er á spítala, og jafnframt við Halldór Laxness til að fá staðfestingu þeirra.
Að öðru leyti var ákveðið, að borgalögmaður hefði nú samband við Baldur Guðlaugsson og fengi upplýst hvaða gögn hann er með í málinu og kannaði til þrautar öll þau gögn, sem finnaleg væru í skjalasafni borgarinnar.

DO (Skammstöfun undirskrifuð af Davíð Oddsyni)


Síðan er handskrifuð viðbót Davíðs:
Fundur 20/4, 82 með Baldri Guðlaugssyni hrl. Menn sammála um að nú væru komin fram þau gögn, sem líklegt væri að finnanleg væru. Baldur sagðist myndi kynna skjólstæðingum sínum stöðu málsins og láta síðan borgina vita um framhaldið.

DO

Aftur á upphafssíðu.