Þessi skýrsla er gerð fyrir Davíð Oddsson þáverandi borgarstjóra snemma árs 1987. Hversvegna veit ég ekki. Þetta kom til mín úr Borgarskjalasafni. Steinunn lýsir afskiptum sínum alveg frá árinu 1968. Einnig er eftir hana bréf til Kjarvals gert veturinn 68, 69 og listi sem hún gerði það haust. Einnig vann hún að lista þegar þetta kom frá Korpúlfstöðum báðir þessir listar á þessum vef.
Í þessu máli öllu hef ég átt í erfiðleikum með að vita hver viðbrögð mín ættu að vera, hversu djúp örvæntingin, hneykslunin og viðbjóður á því fólki sem fannst ekkert að því að vinna að þessu þýfi. En ég veit auðvitað ekki hvað hverjir vissu í gegnum árin.
Þó að faðir minn berðist frá byrjun virðist hafa tekist að halda því leyndu og viðbrögð flestra líklega að auðvitað hafi afi gefið þetta, út í hött að Reykjavíkurborg lægi á þýfi.
Þegar systir mín flytur til Íslands upp úr 1983 hélt hún því alltaf fram að þessu hefði verið stolið (meira segja við ráðamenn, Alfreð Guðmundsson og fleiri), en enginn hlustaði og hún hætti að minnast á það, líklega ekki talið sér hollt að minna stöðugt á þetta.
Bróðir minn Jóhannes er nefndur í þessari skýrslu og get ég ekki sagt neitt um hans afstöðu, en ekki hægt að búast við því að neinn í fjölskyldunni búandi á Íslandi standi í vonlausri baráttu ár eftir ár, áratug eftir áratug, ekki hollt honum né fjölskyldu að verða dæmdur sem gráðugur erfingi, ég svo sannarleg verið ásakaður um það síðan ég byrjaði á þessu máli.
Ég sjálfur flutti af landinu 1982 meðal annars vegna þessa máls og sárinda frá sýingunni í húsnæði mínu 1975 á verkum afa. Ég vissi af djúpum sárindum í fjölskyldunni þó vissi ég minna um smáatriði, ég hafði til dæmis ekki hugmynd um þetta magn mynda hélt alltaf að þetta væri mest dót.
Í enda skýrslunnar minnist Steinunn á 30 myndir sem átti að hafa verið keyptar af Sveini Kjarval föður mínum. Hversvegna þær eru aðeins 30 skil ég ekki. Haustið 1975 ákvað faðir minn í samráði við börn sín að halda sýningu í mínu húsnæði í Reykjavík á myndum (sem hann hafði bjargað úr Austurstræti 12 á sínum tíma og gert við) í tilefni af 90 ára afmæli afa en Reykjavíkurborg gerði ekkert á Kjarvalsstöðum. Faðir minn átti þá í miklum fjárhagsörðugleikum og var að missa hús sitt og fyrirtæki í Danmörku og neyddist þess vegna að selja þessa sýningu, ekki vel séð á Íslandi að sonur Kjarvals væri að græða á föður sínum. Ég vann við að setja þessa sýningu upp með bróðir mínum Jóhannesi og mági Robin Løkken, falleg lítil sýning og öllum til sóma, Bragi Ásgeirsson skrifaði jákvæða og góða grein sem Morgunblaðið í gæsku sinni birti daginn eftir að henni átti að vera lokað, en faðir minn framlengdi sýningunni.
Þessi sýning var mér lífsreynsla og jafnvel þess vegna að ég entist ekki á Íslandi, fyrirlitning blaðamanna á okkur er eitthvað sem situr í mér enn.
Faðir minn vildi selja þessa sýningu í heild sinni til Kjarvalsstaða, vildi ekki að þetta sundraðist, en ég er á því að faðir minn hafi ekki verið með sjálfum sér þetta haust örvæntingin sest í sálina, eða eins og ég skrifaði fyrir nokkrum árum "þetta voru allt dauðatök drukknandi manns". Kjarvalsstaðir höfðu ekki áhuga, listaráð safnsins með Davíð Oddsson sem formann mætti á staðinn og skoðuðu myndirnar, síðan kom smánarboð í tvær eða þrjár myndir sem faðir minn neitaði auðvitað (ekki nema von að þeir hefðu ekki áhuga með á sex þúsund álíka myndir). Síðasta dag sýningarinnar labbar inn maður, Haraldur að nafni arkitekt, með seðla upp á vasann og býður í alla sýninguna með einu skilyrði, hann ekki nefndur á nafn. Faðir minn gekk að því enda hafði hann enga úrkosti. Hvernig 30 af þeim enduðu síðan á Kjarvalsstöðum hef ég ekki hugmynd um. Einu ættu allir að taka eftir, dagatalinu: seinni hluta óktóber í byrjun skýrslunar, en þessi gjöf á að hafa farið fram 7. nóv. Einnig er bréf Ólafs Þórarsonar dagsett 10. október, en hann að lýsa atburðum sem áttu að hafa gerst 7. óktóber. Hvervegna þetta gengur ekki upp hef ég ekki hugmynd um. Það eina sem er þá samtímaheimild, dagbók Guðmundar Alfreðssonar en hann minnist á nokkra tugi mynda. Einnig minnist hann á að hafa ferjað myndir 20. otktóber beint niður á borgastjóraskrifstofu. Taka verður fram að þetta haust var faðir minn veikur í Danmörku en kom heim rétt fyrir jól og fjölskyldan hélt öll jól saman.
Skýrsla.
Yfir vinnu við Kjarvalssafn
árin 1985, 1986 og 1987
Forsaga
Það mun hafa verið seinni hluta október 1968 að ég tók eftir því að á einum gangi Borgaskjalasafns voru tveir eða þrír kassar af ýmis konar dóti og ofan á þeim lágu hattar og þóttist ég þar þekkja Kjarvalshatta. Það gafst ekki ráðrúm til þess að kanna hvernig á þessu stæði því að óvenju mikið var að gera á skjalasafninu þessa dagana. Borgarskjalavörður var þá Lárus H. Blöndal og hafði hann tekið við því starfi haustið
áður af Lárusi Sigurbjörnssyni. Fljótlega bárust til safnsins fleiri kassar líkir þeim sem ég hafði áður séð. Lárus H. Blöndal sagði mér þá að þeir væru frá Jóhannesi Sveinssyni Kjarval og óskaði Lárus eftir því ð ég tæki það að mér næstu vikur að kanna hvað í þessum kössum væri og ganga frá innihaldinu í geymslu.
Eins og ég hafði áður sagt var óvenjumikið að gera í safninu um þetta leyti og vil
Ég reyna að útskýra hvernig á því stóð. Hluti þess húsrýmis sem safnið hefur nú, það er skrifstofa borgarskjalavarðar og lestrarstofa, tilheyrði ekki safninu þegar þetta var. Þar var á þessum tíma Minjasafn borgarinnar sem hafði verið lokað frá því að Lárus Sigbjörnsson hætti störfum. Borgin hafði nýverið keypt húseign áfasta Skúlatúni 2, Borgartúnsmegin.
Ákveðið var að byggingadeild fengi neðstu hæð þess húss og jafnframt að gengið yrði inn í það gegnum skjalasafnið. Hópur iðnaðarmanna var því við vinnu í safninu ýmist að brjóta niður veggi eða reisa nýja ásamt öllu því fylgir. Um þessar mundir var einnig ákveðið að endurreisa húsið Höfða, en þar hafði skjalasafnið undanfarin ár miklar geymslur, bæði allan kjallarann og herbergi á hæðunum. Þessar geymslur varð því að rýma og voru öll skjöl sem geymd voru í kjallaranum flutt í skjalasafnið. Þetta voru staflar af framtölum Reykvíkinga frá því rétt eftir aldamót og fram undir þennan tíma.
Ástæðan fyrir því að framtölin voru flutt á skjalasafnið en ekki upp að Korpúlfstöðum var
sú umbúðirnar voru illa farnar úr kjallaranum í Höfða, m. a. löðrandi kalki úr veggjunum og varð því að ganga frá þeim á forsvaranlega hátt áður en þau færu í varanlega geymslu . Önnur gögn úr Höfða fóru beint í bráðabirgða geymslur, sem höfðu verið útbúnar í tveimur litlum íbúðum á efri hæðum Korpúlfstaða.
Þetta óvenjumikla rask olli því að erfitt var að finna öruggan vinnustað fyrir Kjarvalsdót og nauðsynlegt að ganga frá því sem fyrst. Einnig fékk ég fyrirmæli um að flokka dótið í kössum og ganga frá því til geymslu fyrst um sinn þar til annað yrði ákveðið. Kassarnir sem dótið kom í voru af öllu tagi og yfirleitt illa farnir.
Ég pantaði því nýja kassa og síðan hófst flokkunin 6. nóvember 1968. Í kössunum sem komu frá Kjarval ægði öllu saman: bréfum, handritum, myndum, dagblöðum, fatnaði, penslum, litum , mat , bókum og mörgu fleiru. Margir kassarnir höfðu bersýnilega ekki verið hreyfir árum saman, í aðra höfðu komist vatn og óhreinindi. Ég flokkaði dótið niður í kassa og hafði með mér stúlku sem þurrkaði af ryk og kúsk. Jafnframt skráði ég innihaldið lauslega í tvær bækur sem ég kallaði Kjarvalssafn I og II.
Næstu daga og vikur bárust safninu sífellt fleiri kassar frá Kjarval og gerðist það yfirleitt eftir þremur leiðum: Kjarval hringdi sjálfur og sagði: "Nú má sækja". Var þá óðara send sendibifreið til hans í Breiðfjörðsblikksmiðju. Alfreð Guðmundsson gerði okkur orð um að Kjarval vildi láta sækja kassa eða Kjarval sendi sjálfur bíl með kassa til okkar. Í eitt skipti fór ég til hans þegar kassar voru sóttir. Kjarval lék þá á als oddi og bauð upp ost og rúgbrauð.
Ég hefi skráð í Kjarvalssafn I að 21. nóvember kl. 4:30 hafi ég tekið við síðustu kössunum og á mánudaginn 2, desember pakkað niður því síðasta. Daginn eftir bárust safninu fleiri kassar og þannig hélt það áfram næstu saga. 18. desember 1968 lauk ég við að ganga frá síðustu sendingu. Litlu einu varð að henda af þessu dóti, voru það helst fataplögg , sem annaðhvort voru fúin eða mölétin, en sá fatnaður, sem pakkaði niður, var allur fyrst hreinsaður.
Kassarnir voru merktir í samræmi við skráningu í bækurnar og innsiglaðir og töldust 153.
Eftir áramótin vélritaði ég skrárnar í 3 eintökum og óskaði Lárus H. Blöndal eftir því að ég afhenti Kjarval og geir Hallgrímssyni borgastjóra sitt eintakið hvorum og einu eintaki héldi safnið. Ég reyndi nokkrum sinnum að ná sambandi við Kjarval á hótel Borg en hann kvaðst þá vera slappur og hafa erfitt með svefn. Það var fyrst föstudaginn 17. janúar 1969 sem hann sagðist geta talað við mig. Við hittumst í gestamótökunni á Hótel Borg milli 10 og 11 árdegis og sat ég þar með honum tæpa klukkustund. Það lá vel á honum þessa morgunstund. Þegar ég ætlaði að afenda honum skrána, neitaði hann fyrst að taka við henni, sagði að þetta væri allt búið og gert, sér kæmi þetta dót ekki lengur við og annað í þeim dúr.
Ég bað hann samt að taka við skránni og féllst hann á það að lokum. Síðan spurði ég hann um ýmsar gamlar myndir, sem ég hafði rekist á, og virtist hann hissa og glaður þeg ég sagði honum frá þeim.
Við Kjarval kvöddumst síðan í mesta bróðerni og virtist hann mjög feginn að mál þetta var komið í höfn og var þetta í síðasta skipti sem ég talaði við hann. Nóttina eftir eða laugardaginn 18. janúar varð bruninn Korpúlfstöðum og var mikið lán að hvorki framtölin né Kjarvalsdót var komið þangað uppeftir. 22. janúar afhenti ég Geir Hallrímssyni, borgarstjóra, skrána yfir Kjarvalsmuni.
Kjarval fór á sjúkrahús 28. janúar 1969 þar sem hann dvaldi til dauðadags 13. apríl 1972. Ég heimsótti hann þangað einu sinni en er ekki viss um að hann hafi þekkt mig.
17. mars 1969 var Kjarvalsmunum raðað upp í skjalasafninu og þar voru þeir þar til 7. júlí 1970 þegar þeir voru fluttir í nýinnréttaða skjalageymslu safnsins að Korpúlfstöðum.
Ástæðan fyrir því að ég hefi eytt svona löngu máli í þetta efni er sú að flest af því fólki, sem að því vann, er annað hvort löngu hætt störfum hjá borginni eða fallið frá og ég hef rekið mig á að um það hefur myndast margskonar misskilningur.
18. ágúst 1966 á 180 ára afmæli Reykjavíkurborgar hafði Kjarval tekið fyrstu skóflustungu fyrir byggingu Myndlistarhúss á Klambratúni, sem reist var í tilefni 80 ára afmæli hans. Húsið var næstu ár í byggingu og sumarið 1971 var ákveðið að taka upp þá pakka af Kjarvalsmunum sem ég hafði merkt "Myndir eða málverk". Ætlunin var að ganga frá nokkrum myndum úr þessum pökkum og hafa á sýningu við opnun hússins. Við þetta tækifæri var fenginn lánaður fimleikasalur Gagnfræðaskóla Austurbæjar á Skólavörðuholti.
Alfreð Guðmundsson og ég tókum upp þessa pakka og röðuðum myndunum um salinn. Þetta var í síðari hluta júní og byrjun júlí 1971. skömmu seinna hætti ég störfum hjá Reykjavíkurborg og þar með afskiptum mínum af Kjarvalsmunum um langt skeið.
Ég hafði bent Alfreð Guðmundssyni á Frank Ponzi, listfræðing , sem ég var kunnug, og hafði unnið fyrir skjalasafnið við viðgerð og hreinsun á málverkum safnsins. Frank Ponzi tók að sér að gera við, ramma inn og ganga frá þeim myndum úr Kjarvalsgjöf sem voru sýndar við opnun Myndlistarhússins 24. mars 1974. Myndir þessar hafa margoft verið sýndar þar síðar , telst mér svo til að þær séu um það bil 70 talsins.
Kjarvalssafn
Um 20. júní 1985 gerði Þóra Kristjánsdóttir, þáverandi listfræðilegur ráðunautur
Kjarvalsstaða, mér orð um að hitta sig. Ég hitti hana nokkru seinna og sagði hún mér þá að í tilefni 100 ára afmælis Kjarvals 15. október sama ár, væri ætlunin að halda stóra sýningu á Kjarvalstöðum. Gert væri ráð fyrir að nota á þá sýningu eitthvað af munum þeim sem ég hafði gengið frá 1968. Hún sagði að valinn hefði verið vinnuhópur til að annast þessa framkvæmd og Steinþór Sigurðsson listmálari myndi setja upp sýninguna. Þóra sagði að Þórdís Þorvaldsdóttir , borgarbókarvörður, hefði þegar tekið upp bækur Kjarvals og skráð þær og væru þær í geymslu á Kjarvalsstöðum. Fór Þóra þess á leit við mig að ég tæki upp úr þeim kössum sem eftir væru og kannaði hvað í þeim væri og hvað hægt væri að nota á sýninguna. Þegar þetta var hafði ég nýleg ráðið mig hjá viðskiptaráðuneytinu og kvaðst ekki geta sinnt þessu starfi nema eftir venjulega vinnutíma og um helgar.
26. júní 1985 klukkan rúmlega 4 síðdegis mætti ég á Kjarvalsstöðum. Þar voru fyrir Þóra og Steinþór Sigurðsson . fórum við niður í kjallara hússins, en hluti hans hafði verið þiljaður af sem vinupláss vegna þessa verkefnis. Þar voru allir kassarnir komnir utan einn sem barst frá Borgarskjalasafni. Ég sagði Steinþóri og Þóru að það væri mikill fjöldi af smámyndum og skissur í þeim kössum sem merktir væru með "sendibréf , skissum, reikningar o. Fl. "
Næstu þrjá til fjóra daga tókum við upp úr kössunum utan blaðkössunum, sem við létum bíða. Steinþór og Þóra voru viðstödd þegar allir kassarnir voru opnaðir og gaf Steinþór mér nokkra hugmynd um eftir hverju hann sóttist helst á sýninguna og bað mig að taka það til handargagns fyrir sig, m. a. allar ljósmyndir og skissur og smámyndir.
Hófst ég síðan handa við að flokka það sem í kössunum var og fór langmestur tími í 12 kassa sem merktir voru "Sendibréf , skissur , reikningar o. Fl..
Ég hafði sagt Þóru að ég kæmi ekki nærri myndunum en lagði þær allar eftir því sem þær komu úr kössunum á stórt borð og bjóst við að einhver kunnáttumanneskja tæki það verk að sér.
Mikið verk var að greina í sundur sendibréf, handrit, reikninga o. Fl. Bréfunum raðaði ég upp í stafrófsröð eftir sendendum, sem eru rösklega 500, og eru þau geymd í 14 öskjum.
Bréfin hafa ekki verið skrásett enda engin tök á því þarna í kjallaranum. Allir reikningar eru sömuleiðis settir í séröskjur sem eru 3 talsins. Sýningarskrár og boðskort eru í 3 öskjum. Það sem ég hef kallað handrit Kjarvals er samankomið í 12 öskjum, eru það ýmiskonar hugleiðingar, uppköst af sendibréfum og nauðsynlegt að vélrita það og reyna að raða saman. Tóm árituð umslög eru í 3 öskjum.
Heillaóskaskeiti í 2 öskjum. Ljósmyndir af verkum Kjarvals í einni öskju. Ýmislegt persónulegt í einni öskju. Ljósmyndir í einni öskju. Skissubækur sem ekki er teiknað í einni öskju. Kort í einni öskju. Myndir eftir aðra í einni öskju. Það skal tekið fram að öll blöð úr þessu dóti sem Kjarval hafði á einhvern hátt myndskreitt eða teiknað á voru þegar flokkuð með myndum og skyssum.
Yfir aðra muni, þ.e. fatnað liti myndir eða aðra, pensla ofl. Þess háttar, svo og persónulega muni Kjarvals og steinasafn var gerð sérstök skrá og eru í henni 131 númer.
Ég fékk engin fyrirmæli um hvað ég ætti að gera við þetta dót og að lokum raðaði
Ég því upp í litla geymslu þar sem bækurnar voru fyrir. En það verður að athugast að sú geymsla er mjög vafasöm til lengdar því hún er áræðanlega alltof þurr og heit.
Þá er að segja frá myndum. Satt að segja var ég mjög óróleg yfir því að hafa þær allar útbreiddar og nærri því að segja á glámbekk og dauðhrædd um að eitthvað af smæstu myndunum týndist. Um verslunarmannahelgina 1985 tók ég mig því til og setti minnstu myndirnar ofan í umslög og merkti umslögin með hlaupandi númerum. Ég sýndi Þóru þetta og var hún afar fegin og bað mig endilega að halda þessu áfram. Eftir þetta hafði ég miklu betri yfirsýn yfir fjölda myndanna og gat ennfremur skráð hvað af þeim var lánað á afmælisýninguna. Myndirnar sem komu upp úr kössunum voru 3200, en í september barst niður í kjallara bunki af myndum og skissukassar með myndum í, var það hluti af því sem tekið hafði verið upp 1971. Ég fór einnig í gegnum þessar myndir og eftir að hafa gengið frá þeim eins og litlu myndunum voru númerin orðin 4153. Í janúar 1986 kom síðan afgangurinn af myndunum frá 1971, það er stóru myndirnar og allt í allt eru þessar myndir orðnar 4960 og að meðtöldum þeim myndum , sem þegar eru innrammaðar telur myndagjöf Kjarvals 5062 númer.
Haustið 1985 var keyptur stór stálskápur með 10 skúffum til að geyma í myndir og sumarið 1986 annar til með 14 skúffum og haustið 1986 smíðaði trésmiðjaverkstæði borgarinnar stóra trékistu undir stærstu myndirnar.
Um frágang myndanna er þetta að segja:
Utan um hverja mynd hefur verið lögð hlíf úr sýrufríum pappír og númer myndarinnar límt á hlífina. Myndirnar eru yfirleitt geymdar saman í möppum eftir stærð. Möppurnar eru ýmist keyptar tilbúnar eða hafa verið útbúnar úr hvítu kartoni og eru möppurnar 148.
Þær myndir, sem ekki eru í möppum, eru annaðhvort of stórar eða gerðar á óvanaleg efni svo sem kassa eða annað því um líkt. Myndirnar hafa allar verið skráðar, það er mældar og reynt að lýsa mótifi og litum og texti, sem er á mörgum þeirra, stundum skrifaður
við lýsinguna. Allar litlu myndirnar voru ljósritaður,til þess að ekki þyrfti að handleika
Þær, og ljósritun notuð sem skráningarblöð og á þau skrifaðar allar upplýsingar svo sem um þær sem voru á sýningunni haustið 1985 upp úr hvaða kössum þær komu, þær eru því ekki lengur í umslögum heldur í hlífarskápum og möppum. Ljósritin eru geymd í gatamöppum(ordnurum) 200 saman og fylla 18 slíkar möppur. Skráning stærri myndanna var gerð í lausblaðabækur og blöðunum raðað í 4 litlar gatamöppur og eru yfirleitt 4 eða færri myndir skráðar á hvert blað. Hirlsur þær, sem myndirnar eru geymdar í, eru allar komnar inn í málverkageymsluna á Kjarvalstöðum.
Sumarið 1986 gaf Björn Friðfinnsson heimild til þess að nokkrar myndir yrðu sendar í viðgerð og innrömmun. Í samráði við Alfreð Guðmundsson valdi ég fjórar myndir nr. 4498, 4513, 4513, 4547 og 4548 og voru þær sendar til Morkinskinnu. Annaðist Margrét Ingólfsdóttir og dönsk starfssystir hennar það verk en Hilmar Einarsson rammaði þær inn.
Myndir þessar voru valdar með hliðsón af því að sýna hinar ýmsu gerðir mynda sem þarna er um ræða. Fyrir sýninguna haustið 1985 höfðu 6 myndir málaðar á cellofan, verið settar í plexigler og eru þannig áfram.
Dagblaðakassarnir, sem ég hefi áður minnst á, teljast 35. Ég hefi einungis farið í gegnum einn þeirra nr. 53. flokkaði ég blöðin í sundur og fletti þeim og raðaði áðurnefnda geymslu en tók frá borðalamanak myndskreytt af Kjarval og einnig greinar sem Kjarval hafði klippt úr blöðum. Nauðsynlegt er að fara í gegnum alla blaðakassana á svipaðan hátt.
Allt þetta verk reyndist miklu meira en mig hafði órað fyrir og var útilokað annað en að fá aðstoð við það. Til aðstoðar við mig, þegar á þurfti að halda, fékk ég dætur mínar tvær Guðbjörgu og Þórunni sem báðar eru í myndlistarskólanum svo og Hörð Bragason sem er útskrifaður er úr myndlistarskóla.
Húsnæðið í kjallara Kjarvalsstaða var ekki að öllu leyti heppilegt, loftþungt, léleg lýsing og ýmiskonar truflanir þegar borðin, sem við notuðum, voru flutt upp á aðalhæðina til annarra nota. Vinnan hefur því gengið í nokkrum skorpum en allt hefur þetta þó blessast.
Frá upphafi og þar til Þóra Kristjánsdóttir hætti störfum hjá Kjarvalsstöðum áttum við ágæta samvinnu. Ólafur Jónsson hefur allan tíman verið mér til halds og trausts. Allt starfsfólk Kjarvalsstaða og þá ekki síst Stefán Halldórsson hafa sýnt mikla þolinmæði og aðstoð. Forstöðumaður Alfreð Guðmundsson hefur alla tíð, það er frá 1968 og til þessa dags, sýnt þessu máli mikinn áhuga og ekkert sparað til þess að verða mér að liði.
Meðan ég hefi unnið að þessu verki hefi ég haft samband við Jóhannes S. Kjarval
yngri, arkitekt, og hefur hann sýnt því mikinn velvilja og áhuga.
Að lokum vil ég segja þetta. Ég þakka það traust, sem mér hefur verið sýnt, að fela mér þetta verkefni. Ég vil benda á að sú vinna sem ég hef lagt fram er aðeins upphaf og skráning myndanna eins og hver önnur afgangsskrá. Allt vísindalegt nákvæmnisverk er óunnið, til þess þarf betri vinnuaðstöðu og sérmenntað fólk.
Bréfa og handritaskráning er ennfremur öll eftir svo endanlegur frágangur safnmuna í þar til gerða skápa eða hirslur.
Ég vona að þessari stórkostlegu gjöf Kjarval verði ekki sundrað heldur verði hún varðveitt í einu lagi á sama stað og unnið verði úr þeim mikla efnivið sem þarna er fyrir hendi og hann aukinn eftir því sem hægt er.
Ég vil ennfremur geta þess að eftir ósk Alfreðs Guðmundssonar skráði ég 30 myndir, sem á sínum tíma höfðu verið keyptar af Sveini Kjarval og voru geymdar á sama stað og stóru myndirnar. Gekk ég frá þessum 30 myndum á sama hátt og ég hefi áður lýst.
Reykjavík 12. marz 1987.
Undirskrift
Steinunn Bjarman
Herra borgarstjóri
Davíð Oddsson
Afrit send:
Alfreð Guðmundssyni, Kjarvalsstöðum
Ólafi Jónsyni, Borgarskrifstofum
Birni Friðfinnssyni, Borgarskrifstofum
Gunnari Kvaran, Ásmundarsafni.