Vitnataka Guðrúnar Kjarval

Þetta er ljósmynd af foreldrum mínum, Sveini Kjarval og Guðrúnu Kjarval, dóttir Helga Hjörvar.
.
Efnisyfirlit hér

Index in English here.

Þetta er vitnataka tekin af móður minni hjá lögmanni fjölskyldunnar. Það sem skiptir mestu máli:

Guðrún kveðst minnast þess eins að hún hafi hitt Baldur Guðlaugsson í Kaupmannahöfn. Hann hafi gert boð á undan sér og hafi hún hitt hann á veitingastað á Hótel Angleterre. Hún kveðst telja að þetta hafi verið í ágúst 1982. Hún kveðst hafa upplifað þennan fund sem fyrirmæli eða hótun um að hún ætti ekkert að gera í málinu.

Hún kveðst hafa upplifað þennan fund sem fyrirmæli eða hótun um að hún ætti ekkert að gera í málinu.

Þetta tel ég aðalástæðuna að fjölskyldan var svo treg þegar ég byrjaði að hreyfa við þessu máli, beinn ótti um að þessir menn gætu meitt. Ég held að það stjórni ennþá gerðum þeirra, að þau trúi ekki að þetta verði leiðrétt og þessir menn geti hefnt sín. Þó að móðir mín sé öldruð, fædd 1917, efast ég ekki um neitt í þessari vitnatöku, þetta eru allt hlutir sem hún talaði oft um, nema þennan fund með Baldri. Tel að hún hafi ekki minnst á hann af ótta, talið best að þegja, þá var hún ný orðin ekkja. Ef að skýrsla Baldurs eða minnisblöð frá 1982 eru lesin þar sem hann vitnar í móður mína, sést að þetta stenst allt þó svo að hann reyni að snúa út úr því. Hann nefnir þar að móðir mín hafi séð að myndirnar höfðu verið stimplaðar borginni og ekkert sagt, þar með verið samþykk. En ég man í gegnum árin máttlausa reyði hennar að Frank Ponzi dirfðist að eyðileggja þessi listaverk með því að stimpla beint á þau, þannig talaði hún alltaf um þetta atvik, eitthvað sem virtist sitja í henni meira en annað.
Þegar móðir mín minnist á fjárhagsstöðu fjölskyldunnar haustið 1968 gerir hún ekki of mikið úr því, við vorum í raun að missa allt og eingöngu fyrir ofurátak móður minnar að tókst að halda hlutunum saman. Hún hefur oft sagt mér frá því, þessi pínulitla manneskja, ekki einu sinni 150 cm, gerði það sem gera þurfti og rukkaði menn sem skulduðu föður mínum til að bjarga húsinu.
Þá var ég 18 ára, fór það haust á landbúnaðarskólann á Hvanneyri.



Frásögn Guðrúnar Kjarval vegna málefna er lúta að munum Jóhannesar Kjarval listmálara sem voru teknir úr Sigtúni 7, Reykjavík og færðir í vörslur Reykjavikurborgar.

Skýrslur skráir Kristinn Bjarnason hrl. á skrifstofu sinni að Lágmúla 7, Reykjavík mánudaginn 22. september 2003 kl. 14.00.

Viðstödd er Hrafnhildur Tove Kjarval dóttir Guðrúnar og Sveins Kjarvals.

Guðrún kveður að Sveinn Kjarval eiginmaður sinn hafi verið veikur um nokkurt skeið árið 1968 og árin þar á undan. Kveður hún að Sveinn hafi veikst alvarlega um mitt ár 1966 og hafi hann átt við veikindi að stríða frá þeim tíma.

Guðrún kveður að Sveinn hafi farið haustið 1968 til Danmerkur og dvalið hjá Aase systur sinni sér til heilsubótar fram í miðjan desember 1968.

Guðrún kveðst hafa á þessum tíma unnið hjá Ferðaskrifstofu ríkisins (Baðstofan verslun á vegum FR) og hafði hún fregnað þar að það væri verið að hreyfa við hlutum Kjarvals í Sigtúni 7, Reykjavík. Kveðst hún ekki muna hver hafi sagt sér það.

Guðrún telur að meðan Sveinn var í Danmörku hafi allur hennar tími farið í að vinna og hádegishlé hafi hún notað til þessa að fara gera upp kröfur og þess háttar. Kveður hún fjárhagsstöðu fjölskyldunnar hafa verið afar bágborna á þessum tíma fyrst og fremst vegna veikinda Sveins. Guðrún kveðst hafa þurft að berjast fyrir að bjarga fjármálum fjölskyldunnar á þessum tíma og hafi sú barátta staðið frá degi til dags.

Guðrún kveðst hafa haft samband við Ólaf Þórðarson sem var systursonur Kjarvals og hafði talsvert samneyti við hann, þegar hún frétti af þessum flutningum úr Sigtúni 7, Reykjavík.

Guðrún kveðst síðar hafa heyrt að ástæða þess að rýma þurfti vinnustofuna að Sigtúni 7 hafi verið að Leifur Breiðfjörð hafi þurft vinnustofu fyrir glerlist sína en húsið hafi verið í eigu Breifjörðsfjölskyldunnar.

Guðrún kveður að í framhaldi þess að hún frétti að verið væri að flytja muni úr vinnustofunni til Borgarskjalasafns, hafi hún hringt til Geirs Hallgrímssonar þáverandi borgarstjóra. Hann hafi tjáð sér að verið væri að taka munina til varðveislu. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær hún hringdi en það hafi verið meðan Sveinn var í Danmörku og líklega í beinu framhaldi þess að frétti hvert væri verið að flytja hlutina.

Guðrún kveðst ekki hafa farið í Sigtúnið þetta haust 1968 eða í borgarskjalasafnið eða kannað frekar um hvað væri að ræða.

Hún kveður þau Svein hafa flutt búferlum til Danmerkur í febrúar 1970.

Guðrún kveður að það hafi líklega verið sumarið 1973 sem hún fór með Alfreð Guðmundssyni á vinnustofu þar sem Frank Ponzi vann að því að ganga frá myndverkum eftir Kjarval. Kveður hún Frank Ponzi ekki hafa verið á staðnum en hún hafi séð að búið var að setja stimpil á eitthvað af verkunum, þar sem nafn Reykjavíkur og Kjarvals kom fram.

Guðrún telur að Sveinn hafi ekki verið með í þessari ferð.

Guðrún kveðst ekki hafa áttað sig á því, hvað um var að ræða fyrr en hún var komin heim til Hrafnhildar dóttur sinnar aftur þar sem hún dvaldi. Hún hafi þá orðið reið yfir því að verið væri að skemma verkin með þessu.

Guðrún kveðst ekki hafa komið Íslands í jarðarför Kjarvals vorið 1972 en hún kveðst muna eftir því að Sveinn og Aase hafi farið.

Guðrún kveðst ekki muna eftir því að hafa komið neitt eða rætt við Svein um dánarbússkiptin eftir Kjarval árið 1972 og 1973.

Guðrún telur að Sveinn hafi aldrei verið sáttur við meðhöndlun eigna Kjarvals sem teknar voru úr Sigtúni 1968.

Hann hafi meðal annars fengið einhverja lögmenn til þess að vinna að þessu.

Guðrún kveður að þessi mál hafi hvílt mjög þungt á Sveini alveg fram að því er hann lést.

Guðrún kveðst minnast þess að Guðmundur Axelsson listaverkasali hafi verið í sambandi við fjölskylduna vegna sölu á listaverkum.
Hún kveðst ekki minnast þess sérstaklega hvaða afskipti hún hafði af því að Guðmundur fékk Baldur Guðlaugsson lögmann árið 1982 til þess að kanna réttarstöðu erfingja Sveins Kjarvals og Jóhannesar Kjarvals vegna þeirra muna sem voru teknir úr Sigtúni.

Guðrún kveðst minnast þess eins að hún hafi hitt Baldur Guðlaugsson í Kaupmannahöfn.
Hann hafi gert boð á undan sér og hafi hún hitt hann á veitingastað á Hótel Angleterre. Hún kveðst telja að þetta hafi verið í ágúst 1982. Hún kveðst hafa upplifað þennan fund sem fyrirmæli eða hótun um að hún ætti ekkert að gera í málinu.

Guðrún kveðst ekki hafa neitt sent frá Baldri eða Guðmundi Axelssyni um niðurstöður athugunar Baldurs.

Guðrún kveðst ekkert hafa komið nálægt þessum málum frá þessum tíma fram að hreyft var að nýju við þessu máli á síðustu tveimur árum.

Guðrún kveðst ætíð hafa litið svo á að munir Kjarvals sem teknir voru úr Sigtúninu haustið 1968 hafi verið teknir til varðveislu enda hafi hún fengið upplýsingar um það frá þáverandi borgarstjóra.

Guðrún kveður að hún hafi upplifað það þannig að ekkert hafi verið gert í þessum málum, þar sem fjölskyldunni hafi fundist sig ofurlið borin og fjárhagslega hafi fjölskyldan ekki haft burði að fá aðstoð eða til að gera eitthvað í málinu.

Guðrún kveðst ekki nú muna eftir fleiri atvikum sem máli geti skipt í máli þessu.

Yfirlesið og staðfest
Undirskrift
Guðrún Kjarval
Prentað
Guðrún Kjarval

Viðstödd frásögn og undirritun

Undirskrift
Hrafnhildur Tove Kjarval
Prentað
Hrafnhildur Tove Kjarlval

Undirskrift
Kristinn Bjarnason
Prentað
Kristinn Bjarnason hrl.